Fréttir

GM og Prósjoppan með mót fyrir forgjafalægstu kylfinga landsins
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
miðvikudaginn 30. september 2020 kl. 15:33

GM og Prósjoppan með mót fyrir forgjafalægstu kylfinga landsins

Golfklúbbur Mosfellsbæjar og Prósjoppan ætla halda mót næstkomandi sunnudag sem ætlað er forgjafarlægstu kylfingum landsins en mótið ber heitið Haustmót GM og Prósjoppunnar. Ef vel til tekst munu verða fleiri mót af þessu tagi.

Mótið er ætlað karlkylfingum með forgjöf lægri en 5,5 á meðan konur með lægri en 8,5 fá þátttökurétt. Leikinn er höggleikur án forgjafar og leika karlar og konur í sama flokki. Karlar munu leika af hvítum teigum og konur á bláum teigum. Hámarksfjöldi keppenda er 28 en lágmarksfjöldi er 4.

Nú þegar hafa 24 kylfingar skráð sig en verður skráning meiri en 28 kylfingar þá er raðað inn í mótið eftir forgjöf.

Verðlaun í mótinu verða veitt í formi gjafabréfa hjá Prósjoppunni. Ef atvinnukylfingur er í verðlaunasæti fær hann andvirði verðlauna sinna greidda út í peningum með millifærslu.

Skráningafrestur er föstudaginn 2. október klukkan 12:00 en allar nánari upplýsingar um mótið og skráningu má finna hérna.