Örninn #galvin
Örninn #galvin

Fréttir

Góður lokahringur hjá Haraldi á Norður-Írlandi
Haraldur Franklín Magnús.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
sunnudaginn 6. september 2020 kl. 12:30

Góður lokahringur hjá Haraldi á Norður-Írlandi

Haraldur Franklín Magnús lék á þremur höggum undir pari á lokadegi Northern Ireland Open mótinu sem er hluti af Áskorendamótaröðinni. Andri Þór Björnsson hefur einnig lokið leik í dag.

Fyrir daginn var Haraldur á þremur höggum yfir pari og hafði á fyrstu þremur hringjunum aðeins náð sér í sjö fugla. Hann bætti upp fyrir það í dag og fékk fimm fugla á hringnum og tapaði aðeins tveimur höggum. Hringinn lék hann því á 67 höggum eða þremur höggum undir pari og mótið á parinu. Nokkrir kylfingar eiga enn eftir að ljúka leik en eins og staðan er núna vann Haraldur sig upp um 16 sæti og er jafn í 33. sæti.

Andri Þór var höggi betri en Haraldur fyrir daginn á tveimur höggum yfir pari. Hann fékk tvo fugla á hringnum í dag en á móti fékk hann fjóra skolla og kom því í hús á 72 höggum eða tveimur yfir pari. Hann endaði mótið jafn í 48. sæti á fjórum höggum yfir pari.

Eins og hefur komið fram síðustu daga þá er Guðmundur Ágúst Kristjánsson einnig á meðal keppenda. Hann er í toppbaráttunni og hefur lokið við níu holur í dag og er sem stendur jafn í áttunda sæti þremur höggum á eftir efsti manni.

Hérna má sjá stöðuna í mótinu.


Andri Þór Björnsson.