Golfskálinn opnaði í gær - „Viðtökur fram úr björtustu vonum“
„Þetta var frábær dagur og móttökurnar fóru fram úr okkar björtustu vonum,“ sagði Hans Henttinen, einn eiganda Golfskálans, nýrrar golfverslunar sem opnaði í Mörkinni 3 í gær.
Verslunin starfar í nokkuð minna rými en flestar aðrar golfverslanir á höfuðborgarsvæðinu og segir Hans það með ráðum gert. „Ég vil ekki vera með stærri verslun. Þetta er fín stærð og hentar vel í svona rekstri,“ sagði Hans en verslunin er í um 200 fermetra rými.
Það er skemmtilegur bragur yfir þessari nýju golfverslun og ljóst að hún verður nýr og spennandi kostur fyrir kylfinga í framtíðinni. Öll helstu merkin í golfinu verða til sölu í versluninni og hægt verður að fara í sveiflumælingu innan skamms.
Þegar kylfingar fara í mátunarklefann eða bregða sér á salernið, þá mun það ekki fara framhjá kylfingum að á gólfinu balsa við gamlar tímaritsgreinar úr Golf á Íslandi. Þannig má glitta í nokkrar sögulegar greinar sem setur skemmtilegan svip á verslunina.
Golfskálinn áformar að opna nýja og glæsilega vefsíðu innan skamms og má búast við að hún fari í loftið eftir viku. Opið er til 20 í kvöld hjá þeim félögum í Golfskálanum og því tilvalið að líta við og kynna sér þessa nýju golfverslun.
Lee Westwood tekur á móti kylfingum á salerninu.
Lesa má gamlar tímaritsgreinar úr Golf á Íslandi á fjölum salernis og mátunarklefa.