Grafarholtsvöllur opnar 1. maí - Garðavöllur 28. apríl
Golfklúbbur Reykjavíkur hefur tilkynnt hvenær helstu golfvellir þeirra munu opna í ár og er ljóst að vellir klúbbsins verða opnaðir mun fyrr í ár en undanfarin ár. Korpúlfsstaðavöllur verður opnaður formlega næstkomandi laugardag með innanfélagsmóti klúbbsins.
Garðavöllur á Akranesi verður opnaður laugardaginn 28. apríl með innanfélagsmóti GL og GR og þann 1. maí verður Grafarholtsvöllur opnaður. Veðurfar undanfarnar vikur hefur verið golfvöllum á stórhöfuðborgarsvæðinu sérlega hagstætt og því opna flestir golfvellir landsins mun fyrr en undanfarin ár.
Fleiri vellir hafa tilkynnt um opnun sína, þ.á.m. Hvaleyrarvöllur sem opnar 1. maí. Nú þegar hafa nokkrir vellir opnað fyrir almenna umferð og má þá helst nefna golfvelli á Suðurnesjum sem hægt er að leika inn á sumarflatir.