Fréttir

Guðmundur Ágúst og Guðrún Brá Íslandsmeistarar í höggleik 2019
Guðrún Brá Björgvinsdóttir og Guðmundur Ágúst Kristjánsson.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
sunnudaginn 11. ágúst 2019 kl. 19:09

Guðmundur Ágúst og Guðrún Brá Íslandsmeistarar í höggleik 2019

Guðmundur Ágúst Kristjánsson og Guðrún Brá Björgvinsdóttir fögnuðu í dag Íslandsmeistaratitli í höggleik á Grafarholtsvelli hjá Golfklúbbi Reykjavíkur.

Í karlaflokki endaði Guðmundur fimm höggum á undan næstu kylfingum en hann lék hringina fjóra á 9 höggum undir pari. Guðmundur lék jafnt og stöðugt golf á lokahringnum og kom inn á 4 höggum undir pari.

Þetta er fyrsti sigur Guðmundar á Íslandsmótinu í höggleik en hann hefur leikið frábært golf á tímabilinu og er búinn að tryggja sér þátttökurétt á Áskorendamótaröðinni, næst sterkustu mótaröð Evrópu.

Arnar Snær Hákonarson veitti Guðmundi mesta keppni á lokaholunum en þurfti að sætta sig við annað sætið ásamt Rúnari Arnórssyni og Haraldi Franklín Magnúsi. Rúnar átti besta hring dagsins þegar hann kom inn á 65 höggum.

Staða efstu kylfinga í karlaflokki:

1. Guðmundur Ágúst Kristjánsson, -9
2. Arnar Snær Hákonarson, -4
2. Rúnar Arnórsson, -4
2. Haraldur Franklín Magnús, -4

Í kvennaflokki endaði Guðrún að lokum 7 höggum á undan Sögu Traustadóttur sem varð önnur. Guðrún var eini kylfingurinn í kvennaflokki sem lék undir pari en hún endaði mótið á 3 höggum undir pari.

Líkt og í karlaflokki var baráttan á lokakaflanum milli tveggja kylfinga og urðu sviptingar þegar Guðrún Brá fékk fugl á 14. holu á meðan Saga fékk skolla og var þá munurinn orðinn fimm högg.

Þetta er annað árið í röð sem Guðrún Brá sigrar á Íslandsmótinu í höggleik og er það í fyrsta skiptið frá árinu 1996 sem kvenkylfingur ver titil sinn.

Nína Björk Geirsdóttir endaði í þriðja sæti í mótinu á sex höggum yfir pari en það er hennar besti árangur á Íslandsmótinu í töluverðan tíma en hún sigraði á mótinu árið 2007.

Staða efstu kylfinga í kvennaflokki:

1. Guðrún Brá Björgvinsdóttir, -3
2. Saga Traustadóttir, +4
3. Nína Björk Geirsdóttir, +6
4. Hulda Clara Gestsdóttir, +10
5. Helga Kristín Einarsdóttir, +12


Haukur Örn Birgisson veitir hér Guðrúnu og Guðmundi bikarana eftirsóttu.

Icelandair - 21 jan 640
Icelandair - 21 jan 640