Fréttir

Guðmundur lék fyrsta hringinn á 76 höggum
Guðmundur Ágúst Kristjánsson.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
fimmtudaginn 5. nóvember 2020 kl. 14:38

Guðmundur lék fyrsta hringinn á 76 höggum

Guðmundur Ágúst Kristjánsson GR hóf í dag leik á Andalucia Challenge mótinu sem fer fram á Áskorendamótaröðinni í golfi. Guðmundur lék fyrsta hring mótsins á 76 höggum og er þessa stundina jafn í 75. sæti af 96 kylfingum.

Mótið er haldið á Novo Sancti Petri golfvallarsvæðinu sem margir íslenskir kylfingar kannast við á Spáni en þangað hefur verið hægt að fara í golfferðir undanfarin ár í gegnum íslenskar ferðaskrifstofur.

Guðmundur fékk alls þrjá skolla, einn tvöfaldan skolla og einn fugl á hring dagsins. Skollarnir komu á 3., 9. og 10. holu, tvöfaldi skollinn kom á 4. holunni en fuglinn kom á 17. holu og lék hann því seinni níu holurnar á parinu.

Annar hringur mótsins af fjórum fer fram á morgun, föstudag. Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.


Skorkort Guðmundar á fyrsta keppnisdegi.