Hannes hefur hannað um helming golfvalla landsins – Leynd perla næst á dagskrá
Skagamaðurinn Hannes Þorsteinsson, golfvallararkitekt, hefur hannað golfvelli frá unglingsaldri. Hann vann samkeppni um hönnun á Garðavelli þegar hann var 15 ára gamall og þá var ekki aftur snúið. Hann hefur síðan hannað fjölmarga golfvelli hér á landi og ná þeir allt upp í helming allra golfvalla á landinu.
„Ég hef verið svo heppinn að fá að leika mér á nokkrum stöðum,“ segir Hannes en hann hannaði m.a. Korpúlfsstaðavöll og Urriðavöll. „Það var tilviljun að ég fór út í golfvallahönnun. Ég vann hönnunarsamkeppni hér á Skaganum þegar ég var 15 ára gamall og svo nokkrum árum síðar var ég kallaður til Eskifjarðar til að skoða golfvöll og þannig spannst þetta áfram,“ segir Hannes í sjónvarpsþætti um Eimskipsmótaröðina sem Víkurfréttir framleiðir.
Hannes vinnur nú við að stækka Húsatóftavallar í Grindavík í 18 holur og telur að það sé leynd perla. „Ég er að vinna að mjög skemmtilegu verkefni í Grindavík sem ég tel að það sé leynd perla. Við erum að bæta fimm holum við völlinn og það verða margir hissa þegar þeir sjá hvað þar er að gerast.“
Hér má sjá viðtalið við Hannes sem hefst á þrettándu mínútu.
Myndir: Hannes Þorsteinsson hefur hannað um helming golfvalla landsins. Hannes hannaði fimm nýjar brautir á Húsatóftavelli sem hann telur að muni koma á óvart en myndir af þeim má sjá hér að neðan.