Örninn/kerrur
Örninn/kerrur

Fréttir

Haraldur endaði í 16. sæti
Haraldur Franklín Magnús.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
sunnudaginn 6. október 2019 kl. 18:05

Haraldur endaði í 16. sæti

Lokahringur Race to Himmerland mótsins fór fram í dag í Danmörku. Mótið var hluti af Nordic Golf mótaröðinni en þeir Haraldur Franklín Magnús, Guðmundur Ágúst Kristjánsson og Axel Bóasson voru allir á meðal keppenda.

Haraldur Franklín náði bestum árangri af íslenska hópnum en hann endaði í 16. sæti í mótinu á 4 höggum undir pari. Versti hringur Haraldar kom í dag þegar hann lék á 3 höggum yfir pari. 

Haraldur mun halda fjórða sæti stigalistans eftir þennan árangur og er nú kominn langleiðina með að tryggja sér keppnisrétt á Áskorendamótaröðinni á næsta ári.

Guðmundur Ágúst endaði í 22. sæti í mótinu á 3 höggum undir pari. Líkt og Haraldur átti Guðmundur sinn versta hring í dag en hann kom inn á 4 höggum yfir pari. Hann var þó á parinu fyrir síðustu tvær holurnar en endaði á skolla og þreföldum skolla.

Axel endaði höggi á eftir Guðmundi í 27. sæti. Axel lék á höggi yfir pari í dag.

Niklas Norgaard Möller stóð uppi sem sigurvegari í mótinu þegar hann kláraði hringina þrjá á 15 höggum undir pari. Með sigrinum tryggði Möller sér endanlega þátttökurétt á Áskorendamótaröðinni en hann er nú kominn í efsta sæti stigalistans fyrir lokamótið.

Hér er hægt að sjá lokastöðuna í mótinu. Lokamót tímabilsins fer fram dagana 9.-11. október. 


Skorkort íslenska hópsins.