Fréttir

Haraldur örugglega áfram eftir flottan hring
Haraldur Frankín Magnús.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
föstudaginn 7. maí 2021 kl. 17:24

Haraldur örugglega áfram eftir flottan hring

Haraldur Franklín Magnús er öruggur um að komast gegnum niðurskurðinn á Dimension Data Pro-Am mótinu þrátt fyrir að ekki hafi allir kylfingar lokið leik á öðrum hring. Ekki náðu allir kylfingar að ljúka leik sökum myrkurs og ræðst það í fyrramálið hver niðurskurðarlínan verður.

Mótið er hluti af Áskorendamótaröðinni, næst sterkustu mótaröð Evrópu, og er leikið á tveimur völlum, annars vegar á Montagu vellinum og hins vegar á Outeniqua vellinum. Haraldur lék á Outeniqua vellinum í dag.

Fyrir daginn var Haraldur á tveimur höggum undir pari. Það var mikill stöðugleiki yfir leiknum hjá Haraldur í dag. Hann fékk fjóra fugla á hringnum og tapaði aðeins einu höggi. Hringinn lék hann því á 69 höggum, eða þremur höggum undir pari.

Eftir daginn er Haraldur jafn í 33. sæti á fimm höggum undir pari og í góðri stöðu fyrir helgina. Efstu menn eru á 11 höggum undir pari og því góður möguleiki á að komast meðal efstu manna með tveimur góðum hringjum.

Hérna má sjá stöðuna í mótinu.