Fréttir

Haraldur um miðjan hóp á Spáni
Haraldur Franklín Magnús.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
miðvikudaginn 11. nóvember 2020 kl. 17:41

Haraldur um miðjan hóp á Spáni

Þeir Guðmundur Ágúst Kristjánsson og Haraldur Franklín Magnús hófu í dag leik á Andalucía Challenge de Cadíz mótinu en mótið er það næstsíðasta á tímabilinu á Áskorendamótaröðinni. Haraldur lék betur af þeim tveimur og er um miðjan hóp eftir daginn.

Haraldur hóf leik á fyrstu holu í dag. Hann var á pari vallar eftir átta holur með einn fugl og einn skolla. Þá komu þrír skollar á næstu sex holum en hann náði að laga stöðu sína aðeins með fugli á 15. holunni. Þar við sat og kom Haraldur í hús á 74 höggum, eða tveimur höggum yfir pari, og er hann jafn í 54. sæti.

Guðmundur var á pari vallar eftir níu með einn fugl og einn skolla. Hann fékk annan skolla dagsins á 10 og var hann á höggi yfir pari þar til að hann kom á 16. holuna sem er par 4 hola. Hana lék hann á sjö höggum, eða þremur yfir pari, og endaði hann því daginn á 76 höggum, eða fjórum högum yfir pari. Guðmundur er jafn í 70. sæti eftir daginn.

45 efstu kylfingar stigalistans að þessu móti loknu komast inn á lokamótið og er Guðmundur í 42. sæti eins og staðan er núna. Hann þarf því á ágætis niðurstöður í þessu móti til að vera öruggur inn á lokamótið. Haraldur er sem stendur í 105. sæti og þarf því að enda ofarlega ætli hann sér að enda á meðan 45 efstu á stigalistanum.

Hérna má sjá stöðuna í mótinu.


Guðmundur Ágúst Kristjánsson.