Fréttir

Heildarafkoma GSÍ jákvæð 2019-2020
Íslandsmótið í höggleik fór fram á Hlíðavelli í sumar.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
laugardaginn 7. nóvember 2020 kl. 14:50

Heildarafkoma GSÍ jákvæð 2019-2020

Rekstur Golfsambands Íslands gekk ágætlega á tímabilinu 1. október 2019 - 30. september 2020 en þetta kemur fram á heimasíðu sambandsins.

Rekstrartekjur GSÍ námu rétt tæplega 170 milljónum króna samanborið við 214 milljónir samkvæmt áætlun. Engu að síður var heildarafkoma ársins jákvæð um tæpar 16 milljónir, samanborið við áætlað tap upp á 2,4 milljónir króna.

Fram kemur á heimasíðu Golfsambandsins að tekjur frá samstarfsaðilum hefðu dregist saman á tímabilinu samanborið við áætlanir en ástæðurnar væru meðal annars þær að erfiðara hefði verið að sækja samstarfsaðila og augljóst væri að niðurskurður þeirra hefði áhrif.

Á móti jukust tekjur vegna félagagjalda þar sem aukning kylfinga í golfhreyfingunni var um 11% á tímabilnu.

Hér má sjá ársreikning Golfsambandsins 2020.

Á næstu vikum opnar vefsíða þar sem hægt verður að finna rekstraráætlun 2021-2022 ásamt gögnum sem tilheyra formannafundi. Upplýsingar um vefsíðuna verða sendar út þegar nær dregur.