Fréttir

Heimslisti karla: Reed fór upp um 9 sæti
Patrick Reed sigraði á Northern Trust mótinu um helgina.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
mánudaginn 12. ágúst 2019 kl. 09:56

Heimslisti karla: Reed fór upp um 9 sæti

Bandaríkjamaðurinn Patrick Reed er kominn upp í 15. sæti á heimslista karla eftir sigur helgarinnar á Northern Trust mótinu sem fór fram á PGA mótaröðinni.

Reed var í 24. sæti fyrir helgina og fór því upp um 9 sæti milli vikna. Hæst hefur Reed komist upp í 7. sæti heimslistans en það gerðist árið 2016.

Tvær breytingar urðu á 10 efstu sætunum. Jon Rahm, sem endaði í 3. sæti á Northern Trust mótinu, fór upp fyrir Tiger Woods í 5. sæti og Patrick Cantlay komst upp fyrir Justin Thomas í 9. sætið.

Brooks Koepka er sem fyrr í efsta sætinu og hefur nú haldið því í 22 vikur og er þar með búinn að jafna við Lee Westwood.

Staða efstu kylfinga:

1. Brooks Koepka, 12,76
2. Dustin Johnson, 9,39
3. Rory McIlroy, 8,69
4. Justin Rose, 8,14
5. Jon Rahm, 6,86

Hér er hægt að sjá heimslista karla í heild sinni.