Fréttir

Heimsmót fært frá Mexíkó til Flórída
Patrick Reed hefur titil að verja á Heimsmótinu sem fer í ár fram á Concession.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
föstudaginn 15. janúar 2021 kl. 22:06

Heimsmót fært frá Mexíkó til Flórída

Heimsmótið sem hefur farið fram í Mexíkó undanfarin ár hefur verið fært til Flórída í ár en um er að ræða breytingu vegna Covid-19. PGA mótaröðin sendi leikmönnum minnisblað á föstudaginn þar sem kylfingum var tilkynnt um flutninginn.

Mótið, sem fer fram dagana 25.-28. febrúar, verður haldið hjá Concession golfklúbbnum í Bradenton en völlurinn var hannaður af þeim Jack Nicklaus og Tony Jacklin.

Heimsmótið var fyrst haldið á Valderrama árið 1999 áður en það var bæði haldið á öðrum völlum í Evrópu sem og í Bandaríkjunum. Frá árinu 2017 hefur það hins vegar verið haldið í Mexíkó þar sem það hefði einnig farið fram í ár ef ekki hefði verið fyrir Covid-19.

Patrick Reed sigraði á mótinu í fyrra en þar áður vann Dustin Johnson mótið í þriðja skiptið á ferlinum.