Nettó - Samkaup
Nettó - Samkaup

Fréttir

Íslendingar á Bethpage Black
Félagarnir við viðvörunarskiltið á Bethpage Black.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
fimmtudaginn 16. júní 2022 kl. 15:06

Íslendingar á Bethpage Black

„Þessi upplifun var alveg geggjuð og fá að spila völl sem hefur haldið nokkur stórmót eins og US open, PGA championship og Fedex cup playoffs tala nú ekki um það að fá að spila á sömu teigum og bestu kylfingar heims,“ segir Sigurður Stefánsson, kylfingur úr Golfklúbbi Suðurnesja en hann ásamt þremur öðrum Suðurnesjamönnum léku einn þekktasta golfvöll í Bandaríkjunum, Bethpage Black.

Með Sigurði voru Pétur Þór Jaidee, og synir hans, Guðmundur og Stefán Julian. Allt vanir kylfingar enda er ekki mælt með því að menn leiki þennan völl nema að vera þokkalegir í golfi. 

GKG sumarhermar
GKG sumarhermar

Bethpage svæðið sem er á Long Island, nærri New York, er meðal vinsælustu almenningssvæða landsins. Þar eru fimm golfvellir og Svarti völlurinn er þar fremstur en auk hans eru Rauði, Blái, Græni og Guli völlurinn. 

„Þessi völlur er mjög erfiður bæði vegna lengdarinnar en hann er 6850 metrar á meistarateigum en líka hversu hæðóttur hann er og vel varnar flatir með glompum.Völlurinn var í frábæru standi þegar við spiluðum og flatirnar voru eins og teppi,“ sagði Sigurður.

Lengi vel var það frægt að kylfingar vörðu mörgum klukkustundum sofandi í bílnum yfir nótt við völlinn til að komast í röð til að fá teigtíma. 

„Nú er hægt að panta rástíma á betapagegolfcourse.com fyrir almenning eru það 5 dagar fram í tímann en fyrir íbúa New York er það 7 dagar fram í tímann þannig það getur verið erfitt að fá tíma fyrir 4 manna holl en fyrir 1-2 er það ekkert mál. Við borguðum 100$ á mann í vallargjald sem er alls ekki mikið miðað við svona upplifun,“ bætir Sigurður við en hvernig gekk þeim félögum að eiga við þennan erfiða völl?

„Okkur gekk þokkalega, Pétur Jaidee, okkar besti maður var mjög góður, á 5 yfir (76 högg) ég var 11 yfir og guttarnir voru eitthvað meira.“   

En hver er erfiðasta brautin?

„Erfiðasta holan er klárlega 15. braut, vegna þess að hún er bæði löng, 400 metrar og með lítið vel varða flöt. Klúbbhúsið er mjög fínt og stórt með stórum svölum þar sem maður getur sitið úti og horft yfir 1. og 18. holu,“ sagði Sigurður.

Meðfylgjandi myndskeið er frá Opna bandaríska mótinu árið 2000 þegar Tiger Woods sigraði eftir harða keppni við Phil Mickelson. US Open var þar líka 2009. PGA risamóð var þar 2019 en svo hafa fleiri stórmót atvinnumanna verið haldin á vellinum. Þar verður Ryder Cup svo leikið 2024.

https://www.bethpagegolfcourse.com/about/

Hér er líka stutt myndskeið um völlinn.