Örninn/kerrur
Örninn/kerrur

Fréttir

Íslendingur í Pro/Am mótinu fyrir mót vikunnar á PGA mótaröðinni
Cameron Strang og Árni Ósvaldsson.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
fimmtudaginn 13. febrúar 2020 kl. 07:59

Íslendingur í Pro/Am mótinu fyrir mót vikunnar á PGA mótaröðinni

Á miðvikudaginn fór fram upphitunarmót fyrir Genesis Invitational mótið sem er hluti af PGA mótaröðinni. Gestgjafi mótsins er enginn annar en Tiger Woods og spila flestir af bestu kylfingum heims í mótinu sem haldið er á Riviera vellinum í Los Angeles.

Íslendingurinn Árni Ósvaldsson sem er byggingaverktaki í Los Angeles fékk þann heiður að spila með Kanadabúanum Adam Hadwin í upphitunarmótinu (Pro/Am) á miðvikudaginn. Hadwin er á meðal bestu kylfinga heims í dag en hann situr í 57. sæti heimslistans og hefur sigrað á einu móti á PGA mótaröðinni.

Árni er sjálfur enginn aukvissi á golfvellinum en hann er með þrjá í forgjöf og er að sögn félaga hans fastagestur á hinum frábæra Riviera golfvelli.

Ástæða þess að Árni komst inn í Pro/Am mótið er tenging hans við Bandaríkjamanninn Cameron Strang og er Árni í raun í boði hans. Árni er þessa dagana að byggja 1.000 fm hús fyrir Strang og eru þeir góðir félagar.

Hér meðfylgjandi eru myndir af Tiger Woods og Steve Stricker í pallborðsumræðum á þriðjudaginn ásamt mynd af Árna með Phil Mickelson þegar dregið var í holl í mótinu.


Adam Hadwin.