Keilir endaði í 19. sæti á EM klúbbaliða
Golfklúbburinn Keilir endaði í dag í 19. sæti á EM klúbbaliða sem fór fram dagana 25.-27. október í Frakklandi á Golf du Medoc svæðinu.
Benedikt Sveinsson, Helgi Snær Björgvinsson og Henning Darri Þórðarson spiluðu fyrir hönd klúbbsins en leiknir voru þrír hringir í mótinu.
Benedikt var bestur í liðinu en hann endaði í 38. sæti í einstaklingskeppninni á 12 höggum yfir pari í heildina. Henning Darri lék samtals á 17 höggum yfir í mótinu og endaði í 51. sæti á meðan Helgi Snær lék höggi verr og endaði í 53. sæti.
Tvö bestu skor liðsins töldu alla daga og var Keilir samtals á 25 höggum yfir pari í mótinu. Það skilaði þeim í 19. sæti af 26 klúbbum. Heimamenn í RCF - La Boulie golfklúbbnum stóðu uppi sem sigurvegarar á 14 höggum undir pari, þremur höggum á undan Gyttegaard og Golf El Prat klúbbunum frá Danmörku og Spáni.
Hér er hægt að sjá lokastöðuna í mótinu.
Skorkort íslenska liðsins á lokahringnum.