Koepka hóf titilvörnina af krafti
Fyrrum efsti kylfingur heimslistans Brooks Koepka hóf titilvörn sína á FedEx St. Jude Invitational Heimsmótinu af krafti en fyrsti hringur mótsins var leikinn í gær.
Koepka lék fyrsta hringinn á 62 höggum eða átta höggum undir pari og er hann tveimur höggum á undan næstu mönnum. Hann fékk níu fugla á hringnum, einn skolla og restina pör.
Undanfarið hefur Koepka ekki verið að leika vel og voru því miklar efasemdir um möguleika hans á því að berjast um sigur í mótinu. Miðað við byrjunina þá er Koepka að nálgast sitt besta form á góðum tíma þar sem fyrsta risamót ársins hefst næsta fimmtudag. Þá mun Koepka reyna að verða fyrsti kylfingurinn í sögunni til að vinna PGA meistaramótið þrjú ár í röð.