Fréttir

LPGA: Kang varði titil sinn í Kína
Danielle Kang.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
sunnudaginn 20. október 2019 kl. 12:00

LPGA: Kang varði titil sinn í Kína

Lokadagur Buick LPGA Shanghai mótsins á LPGA mótaröðinni fór fram í nótt. Það voru þær Danielle Kang, sigurvegari mótsins frá því í fyrra, og Jessica Korda sem börðust um sigurinn. Svo fór að lokum að Kang hafði betur með einu höggi.

Korda byrjaði daginn höggi á undan Kang. Hún tapaði þó þeirri forystu strax á fyrstu holu eftir að fá skolla á meðan Kang fékk fugl. Eftir fugl á níundu holunni hjá Korda var staðan jöfn. Korda fékk svo skolla á 12. holunni á meðan Kang hélt áfram að fá pör. Kang jók svo forystuna í tvö högg með fugli á 15. holunni. Þá forystu lét hún ekki af henti og endaði hún mótið á 16 höggum undir pari. Lokahringinn lék hún á 70 höggum þar sem hún fékk tvo fugla og restina pör.

Korda lék á 72 höggum, eða pari vallar, þar sem hún fékk þrjá fugla, þrjá skolla og restina pör. Hún endaði ein í öðru sæti á 15 höggum undir pari.

Þetta var þriðji sigur Kang á LPGA mótaröðinni en síðasti sigur kom fyrir ári síðan þegar hún fagnaði sigri á sama móti.

Hérna má sjá lokastöðuna í mótinu.