Fréttir

LPGA: Kim með forystu fyrir lokahringinn á KPMG meistaramótinu
Sei Young Kim.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
sunnudaginn 11. október 2020 kl. 09:53

LPGA: Kim með forystu fyrir lokahringinn á KPMG meistaramótinu

Sei Young Kim er með tveggja högga forystu fyrir lokahringinn á KPMG PGA meistaramótinu sem fer fram á LPGA mótaröðinni. Mótið er þriðja risamót ársins og fer fram á Aronimink golfvellinum í Pennsylvaníu fylki Bandaríkjanna.

Kim, sem hefur sigrað á 10 mótum á LPGA mótaröðinni, er enn í leit að sínum fyrsta risatitli. Henni hefur þó áður gengið vel á risamóti því hún hefur bæði endað í 2. sæti á PGA meistaramótinu og Evian meistaramótinu og endaði í topp-10 í öllum hinum risamótunum þremur.

Tveimur höggum á eftir Kim eru þær Brooke M. Henderson og Anna Nordqvist sem báðar hafa fagnað sigri á risamóti og vita því hvað þarf til að vinna á sunnudaginn.

Í fjórða sæti er reynsluboltinn Inbee Park sem hefur, þrátt fyrir ungan aldur, sigrað á 7 risamótum. Síðasti risatitill hennar kom þó árið 2015 en hún hefur lokadaginn einungis þremur höggum á eftir Sei Young Kim.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.

Staða efstu kylfinga:

1. Sei Young Kim, -7
2. Brooke M. Henderson, -5
2. Anna Nordqvist, -5
4. Inbee Park, -4
5. Bianca Pagdanganan, -3
6. Gaby Lopez, -2
6. Jennifer Kupcho, -2
6. Carlota Ciganda, -2