Örninn/kerrur
Örninn/kerrur

Fréttir

LPGA: Korda fagnaði sigri eftir bráðabana
Nelly Korda.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
sunnudaginn 3. nóvember 2019 kl. 09:22

LPGA: Korda fagnaði sigri eftir bráðabana

Lokadagur Taiwan Swining Skirts mótsins á LPGA mótaröðinni fór fram í nótt. Það var Nelly Korda sem stóð uppi sem sigurvegari eftir þriggja kvenna bráðabana.

Korda var með þriggja högga forystu fyrir daginn á Minjee Lee og höggi þar á eftir var Caroline Masson. Masson lék best af þeim í dag, eða 68 höggum, en hún fékk fimm fugla, einn skolla og restina pör. Lee lék á 69 höggum þar sem hún fékk einn örn, fjóra fugla, þrjá skolla og restina pör. Korda lék svo aftur á móti á 72 höggum, eða pari vallar, en hún fékk fimm fugla, fimm skolla og restina pör. Bæði Korda og Lee fengu fugl á lokaholunni til að komast í bráðabana.

Aðeins þurfti að leika eina holu í bráðabananum en 18. holan var leikinn. Korda fékk fugl í fyrstu tilraun á meðan Masson og Lee fengu báðar par.

Þetta er þriðji sigur Korda á LPGA mótaröðinni en fyrsti sigur hennar kom einmitt fyrir ári síðan í sama móti. Í millitíðinni vann hún Australian Open mótið í febrúar fyrr á þessu ári.

Hérna má sjá lokastöðuna í mótinu.