Fréttir

LPGA mótaröðin fer aftur af stað í vikunni
Eun Hee Ji.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
miðvikudaginn 15. janúar 2020 kl. 08:00

LPGA mótaröðin fer aftur af stað í vikunni

70. tímabil LPGA mótaraðarinnar hefst á fimmtudaginn þegar Diamond Resort meistaramót meistaranna hefst.

Alls eru sex af 10 efstu kylfingunum á heimslistanum með í mótinu en þátttökurétt hafa sigurvegarar á LPGA mótaröðinni árið 2018 og 2019.

Kylfingarnir sex sem um ræðir eru Nelly Korda (3. sæti heimslistans), Danielle Kang (4), Sei Young Kim (5), Nasa Hataoka (6), Brooke M. Henderson (8), Lexi Thompson (10).

Ásamt bestu kylfingum heims spila 49 frægir leikarar og íþróttafólk. Má þar til að mynda nefna Larry Fitzgerald, Denny Hamlin, Michael Pena og Jack Wagner en fræga fólkið leikur með LPGA kylfingunum alla fjóra dagana og eru í keppni sín á milli. John Smoltz hefur titil að verja í keppni frægra.

Í aðalmótinu sjálfu hefur Eun-Hee Ji titil að verja en hún lék á 14 höggum undir pari í mótinu í fyrra þegar það fór fram í fyrsta skiptið.

Eins og áður hefur komið fram hefst mótið á fimmtudaginn en það klárast á sunnudaginn fjórum hringjum seinna.

Hér verður hægt að fylgjast með skori keppenda í beinni.