Örninn 21 járn
Örninn 21 járn

Fréttir

Matsuyama sigraði á Masters mótinu 2021
Hideki Matsuyama.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
sunnudaginn 11. apríl 2021 kl. 22:41

Matsuyama sigraði á Masters mótinu 2021

Japaninn Hideki Matsuyama sigraði í dag á Masters mótinu í golfi, fyrsta risamóti ársins í karlaflokki. Þetta er fyrsti risatitill Matsuyama og sjötti sigurinn hans á PGA mótaröðinni.

Matsuyama var með fjögurra högga forystu fyrir lokahringinn og var búinn að bæta við sig einu höggi í forskot fyrir síðustu sjö holur mótsins.

Sólning
Sólning

Eftir skolla á 12. holu var forskotið enn fimm högg og Bandaríkjamennirnir Xander Schauffele og Will Zalatoris hans helstu keppinautar. Matsuyama gerði hins vegar stór mistök á 15. holu þegar hann sló yfir flötina í tveimur höggum og í vatn. Á sama tíma fékk Schauffele sinn fjórða fugl í röð og þar með var forystan komin niður í tvö högg þegar þrjár holur voru eftir.

Líkurnar á sigri hjá Schauffele urðu nánast að engu þegar hann sló í vatn á 16. holunni. Schauffele endaði á því að fá þrefaldan skolla á holunni og gat Matsuyama því leyft sér að anda léttar lokaholurnar.

Matsuyama endaði mótið á 10 höggum undir pari eftir skolla á 18. holu og varð að lokum einu höggi á undan Will Zalatoris sem varð annar. Sigurinn var þó ekki í hættu á lokaholunni en Matsuyama missti stutt pútt fyrir pari.

Zalatoris var að leika á Masters mótinu í fyrsta skiptið og vakti mikla athygli um helgina, bæði fyrir frábæran golfleik sem og líkindi hans og kylfusveins Happy Gilmore. Sjá nánar hér.

Xander Schauffele og Jordan Spieth enduðu jafnir í þriðja sæti á 7 höggum undir pari.

Þetta er fyrsti sigur Matsuyama á risamóti og jafnframt fyrsti sigur Japana á risamóti í karlaflokki. Þá er Matsuyama einungis annar asíski karlkylfingurinn sem sigrar á risamóti en sá fyrsti var Y.E. Yang árið 2009.

Hér er hægt að sjá lokastöðuna í mótinu.

Lokastaðan:

1. Hideki Matsuyama, -10
2. Will Zalatoris, -9
3. Jordan Spieth, -7
3. Xander Schauffele, -7
5. Jon Rahm, -6
5. Marc Leishman, -6
7. Justin Rose, -5
8. Patrick Reed, -4
8. Corey Conners, -4

Örninn járn 21
Örninn járn 21