Örninn 2025
Örninn 2025

Fréttir

Sunnudagur 15. mars 2009 kl. 23:13

Mickelson sigraði á Doral

Phil Mickelson hrósaði sigri á CA Championship heimsmótinu sem lauk nú fyrri stundu á Doral í Flórída. Hann lék síðasta hringinn á 69 höggum, eða þremur undir pari, og var samtals á 19 undir, einu höggi á undan landa sínum Nick Watney.

Mickelson og Watney háðu skemmtilega og spennandi keppni um sigurinn, en þeir voru jafnir eftir þrjá hringi. Skolli sem Watney fékk á elleftu holu varð hins vegar banabitinn því að báðir fengu þeir skolla á tólftu og eftir það breyttist staðan ekkert.

Í þriðja sæti, tveinur höggum á eftir Watney, var Jim Furyk, sem átti stórgóðan  leik á síðasta hring og í fjórða var Indverjinn Jeev M. Singh Oliver Wilson og Camilo Villegas voru jafnir í fimmta, Thomas Aiken og Søren Kjeldsen í því sjöunda og í níunda sæti, á 11 undir, kom Tiger Woods, sem átti góðan endasprett á þessu fyrsta höggleiksmóti sínu í átta mánuði. Jafnir hinum í níunda sæti voru Justin Leonard, Kenny Perry og Rod Pampling.

Meðal annarra má nefna Rory McIlroy sem hafnaði í tuttugasta sæti eftir að hafa leikið á einu höggi yfir pari.Geoff Ogilvy var á jöfnu pari í dag, alls á fjórum undir, og endaði í fertugasta sæti. Þá átti Svíin Henrik Stenson afleitan dag þar sem hann lék á 83 höggum, 11 yfir pari og féll úr 57. sæti niður í það 77.

Mickelson fagnar þessu eflaust vel enda hefur hann aldrei unnið heimsmót (WGC) áður á ferlinum. Watney má einnig vel við una þar sem hann sýndi svo ekki varð um villst að hann getur staðið í þeim allra bestu og með smá heppni á síðustu holunni, þar sem boltinn stöðvaðist á brún holunnar í pútti fyrir fugli, hefði hann í það minnsta knúið fram umspil.

Frammistaða Woods á mótinu þótti nokkuð góð og batnaði mikið eftir því sem á leið enda sagði meistarinn sjálfur að hann skorti nokkuð leikæfingu þó líkamlega formið væri mjög gott. Hann var á þremur undir eftir fyrstu tvo hringina og kenndi hann helst um óheppni í púttum, en seinni tvo hringina lék hann á  136 höggum, átta undir pari, en einungis þrír kylfingar náðu því, þeir Søren Hansen (135), Justin Rose (136) og Jim Furyk (136).

Staðan

Mynd: Mickelson gengur sigri hrósandi af velli.

ÞJ
Örninn 2025
Örninn 2025