Fréttir

Naumt tap gegn Sviss
Frá vinstri: Heiðrún, Saga, Andrea og Hulda.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
fimmtudaginn 10. september 2020 kl. 18:49

Naumt tap gegn Sviss

Íslenska kvennalandsliðið í golfi er með á Evrópumóti áhugakylfinga sem fer fram í Svíþjóð um þessar mundir. Eftir höggleik á fyrsta keppnisdegi komst íslenska liðið í topp-8 og lék í dag í 8-liða úrslitum gegn landsliði Sviss.

Ísland tapaði afar naumlega fyrir Sviss í fyrstu umferð riðlakeppninnar og var ekki langt frá því að komast í undanúrslitaleikinn.

Saga Traustadóttir og Andrea Bergsdóttir töpuðu með minnsta mun í fjórmenningnum þar sem að úrslitin réðust á lokaholunni. Það sama var uppi á teningnum hjá Heiðrúnu Önnu Hlynsdóttur sem tapaði einnig með minnsta mun á lokaholunni. Hulda Clara Gestsdóttir tapaði sínum leik 3/2.

Eftir leik dagsins er ljóst að íslenska liðið getur efst endað í 5. sæti. Liðið leikur á morgun gegn Ítalíu.

Kvennalandslið Íslands er þannig skipað: Heiðrún Anna Hlynsdóttir, Andrea Bergsdóttir, Saga Traustadóttir og Hulda Clara Gestsdóttir.

Hér er hægt að sjá úrslit allra leikja.