Fréttir

Ólafía og Woods saman í liði í nýju móti á LPGA mótaröðinni
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
þriðjudaginn 16. júlí 2019 kl. 19:19

Ólafía og Woods saman í liði í nýju móti á LPGA mótaröðinni

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir er skráð til leiks á Dow Great Lakes Bay Invitational mótið sem fer fram dagana 17.-20. júlí hjá Midland golfklúbbnum.

Mótið er hluti af LPGA mótaröðinni og er sérstakt að því leyti að leikið er í tveggja manna liðum. Ólafía mun leika með góðri vinkonu sinni úr háskólagolfinu, Cheyenne Woods, og spila þær 72 holur næstu fjóra daga ef þær komast í gegnum niðurskurðinn að tveimur hringjum loknum.

Tvo hringi mótsins spila kylfingar eftir fjórmennings leikfyrirkomulagi og hina tvo betri bolta og er því mótið eins og Zurich Classic mótið sem fór fram fyrr á tímabilinu á PGA mótaröðinni.

Ólafía og Woods fara af stað klukkan 9:50 að staðartíma á fimmtudaginn eða klukkan 14:50 að íslenskum tíma og verða þær með þeim Nasa Hataoka og Suzuka Yamaguchi í holli.

Hér verður hægt að fylgjast með skori keppenda í beinni.


Cheyenne Woods.