Ólafur Björn féll niður í 10. sæti eftir erfiðan annan hring
Ólafur Björn Loftsson úr Nesklúbbnum er í 10. sæti í SCVB Pacific Invitational háskólamótinu sem fram fer í Kaliforníu. Hann var efstur á mótinu eftir fyrsta hring eftir að hafa leikið á 65 höggum en fann sig ekki á öðrum hring sem hann lék á 78 höggum eða sjö höggum yfir pari.
Ólafur er samtals á einu höggi yfir pari fyrir lokahringinn í 10. sæti af 60 keppendum. Skor keppenda var nokkuð hærra á öðrum keppnisdegi en þeim fyrsta og á Ólafur ennþá möguleika á sigri í mótinu. Hann er sex höggum á eftir Kevin Lucas sem leiðir á samtals fimm höggum undir pari.
Ólafur hóf leik á 10. teig og lék fyrri níu holurnar á 37 höggum eða einu höggi yfir pari. Seinni níu holurnar á hringnum reyndust honum erfiðar því hann fékk þrjá skolla, einn tvöfaldan skolla og einn þrefaldan skolla. Reyndar fékk Ólafur einnig tvo fugla í millitíðinni.
Charlotte háskólinn sem Ólafur leikur með er í 4. sæti fyrir lokahringinn á samtals tíu höggum yfir pari og er fimm höggum á eftir Colorado State háskólanum sem er í efsta sæti. Lokahringurinn fer fram á morgun.