Fréttir

PGA: Fyrsti sigur Laird í sjö ár
Martin Laird.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
mánudaginn 12. október 2020 kl. 17:02

PGA: Fyrsti sigur Laird í sjö ár

Það var mikil spenna á lokadegi Shriners Hospitals for Children Open mótinu sem lauk í gær á PGA mótaröðinni. Þrír kylfingar enduðu jafnir í efsta sætinu og eftir tvær holur í bráðabana var það Skotinn Martin Laird sem stóð uppi sem sigurvegari.

Fyrir daginn var Laird í forystu á 20 höggum undir pari. Hann hélt þeirri forystu lengst af lokadeginum og var hann höggi á undan næstu kylfingum þegar hann kom á 72. holuna. Honum urðu á mistök og tapaði höggi á lokaholunni og varð því að grípa til bráðabana. 

Þeir Matthew Wolff, sem lék síðustu 28 holurnar í mótinu á 14 höggum undri pari, og Austin Cook enduðu jafnir Laird á 23 höggum undir pari. Þeir léku báðir á fimm höggum undir pari en þeir byrjuðu daginn tveimur höggum á eftir Laird.

Fyrst var 18. holan leikin og fengu allir kylfingar par. Næst var farið á 17. holunni og náði Laird sér þá í fugl á meðan hinir fengu par. Þar við sat og fagnaði Laird sínum fyrsta sigri á PGA mótaröðinni síðan í apríl árið 2013.

Hérna má sjá lokastöðuna í mótinu.