Örninn/kerrur
Örninn/kerrur

Fréttir

PGA: Fyrsti sigur Todd í rúm fimm ár
Brendon Todd.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
sunnudaginn 3. nóvember 2019 kl. 21:11

PGA: Fyrsti sigur Todd í rúm fimm ár

Brendon Todd gerði sér lítið fyrir og fagnaði fjögurra högga sigri á Bermuda Championship mótinu sem lauk nú undir kvöld á PGA mótaröðinni. Mótið var haldið fyrir þá kylfinga sem ekki komust inn á HSBC Champions heimsmótið í Kína.

Todd byrjaði daginn í öðru sæti en var fljótt búinn að taka forystu eftir að fá sjö fugla í röð á holum tvö til átta. Hann bætti svo við þremur fuglum á síðari níu holunum og fyrir síðustu holuna var hann með fimm högga forystu. Því kom ekki að sök þó svo að hann endaði á skolla en hann lék lokahringinn á 62 höggum, eða níu höggum undir pari. Samtals endaði Todd á 24 höggum undir pari.

Harry Higgs, sem var í forystu fyrir lokadaginn, endaði einn í öðru sæti á 20 höggum undir pari.

Þetta var annar sigur Todd á PGA mótaröðinni en fyrsti sigurinn kom fyrir rúmlega fimm árum þegar að hann stóð uppi sem sigurvegari á HP BYron Nelson Championship mótinu.

Hérna má sjá lokastöðuna í mótinu.