Fréttir

PGA: Johnson í forystu eftir tvo hringi á Northern Trust
Dustin Johnson.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
föstudaginn 9. ágúst 2019 kl. 22:42

PGA: Johnson í forystu eftir tvo hringi á Northern Trust

Bandaríkjamaðurinn Dustin Johnson er með eins höggs forystu þegar tveir hringir eru búnir af Northern Trust mótinu á PGA mótaröðinni. Mótið er það fyrsta af þremur mótum í FedEx úrslitakeppninni.

Johnson, sem var í öðru sæti eftir fyrsta keppnisdag, er samtals á 12 höggum undir pari eftir tvo hringi, höggi á undan Jordan Spieth sem er annar.

Spieth átti besta hring dagsins þegar hann kom inn á 7 höggum undir pari. Bandaríkjamaðurinn er í leit að sínum fyrsta sigri á PGA mótaröðinni frá árinu 2017.

Troy Merritt, sem leiddi eftir fyrsta daginn, er jafn Abraham Ancer, Jon Rahm og Patrick Reed í þriðja sæti mótsins.

Rory McIlroy er jafn Justin Rose og þremur öðrum í 7. sæti á 9 höggum undir pari.

Eins og Kylfingur greindi frá fyrr í dag hefur Tiger Woods hætt keppni í mótinu en hann vonast til að geta mætt til leiks í BMW mótið.

Þriðji hringur mótsins fer fram á morgun, laugardag. Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.