Phil Mickelson mætir til leiks án „Bones“
Eins og margir ættu að hafa frétt þá héldu Phil Mickelson og kylfuberi hans til margra ára, Jim „Bones“ Mackay, í sitt hvora áttina nú fyrir skömmu. Að sögn Mickelson var aðskilnaðurinn gerður í miklu bróðerni og yrðu þeir áfram góðir vinir.
Mickelson hefur ekkert spilað síðan þessar fréttir bárust, en hann var síðast með á FedEx St. Jude Classic mótinu sem var vikuna fyrir Opna bandaríska meistaramótið.
Nú er Mickelson mættur aftur til leiks, en hann verður á meðal þátttakenda á Greenbrier Classic mótinu, sem hefst á morgun og verður það fyrsta mótið sem Mickelson og „Bones“ verða ekki saman. Það eiga eflaust margir eftir að sakna þess að sjá þá félaga ganga um völlinn, en bróðir Mickelson, Tim Mickelson er mættur á pokann hjá bróður sínum og verður áhugavert að sjá hvernig samstarf þeirra mun ganga.
Tim Mickelson verður á pokanum hjá Phil.