Örninn 2025
Örninn 2025

Fréttir

Ragnhildur efst eftir höggleikinn á breska áhugakvennamótinu | Allar stelpurnar áfram
Ragnhildur Kristinsdóttir.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
þriðjudaginn 8. júní 2021 kl. 23:31

Ragnhildur efst eftir höggleikinn á breska áhugakvennamótinu | Allar stelpurnar áfram

Þrjár íslenskar stelpur hófu í gær leik á breska áhugakvennamótinu, einu af sterkustu áhugakvennamótum heims. Leikið er á Kilmarnock Barassie vellinum í Skotlandi. Það eru þær Hulda Clara Gestsdóttir, Jóhanna Lea Lúðvíksdóttir og Ragnhildur Kristinsdóttir sem eru með og komust þær allar áfram eftir í holukeppnina sem hefst á morgun.

Ragnhildur gerði sér lítið fyrir og sigraði höggleikinn eftir glæsilegan annan hring upp á 66 högg, eða sjö högg undir pari. Hún fékk átta fugla á hringnum í dag og tapaði aðeins einu höggi. Í gær lék hún á 74 höggum og endaði hún því samtals á sex höggum undir pari, tveimur höggum á undan næstu kylfingum.

Örninn 2025
Örninn 2025

Hulda lék á höggi undir pari í gær og var því í mjög góðum málum fyrir annan hringinn. Í dag lék hún á 77 höggum, eða fjórum höggum yfir pari, og endaði því á samtals þremur höggum yfir pari. Hún komst því örugglega áfram en hún varð í 12. sæti.

Að lokum lék Jóhanna hringina tvo á samtals 11 höggum yfir pari. Eftir erfiðan dag í gær þar sem hún lék á 81 höggi byrjaði Jóhanna daginn með miklum látum í dag en hún fékk fjóra fugla á fyrstu sjö holunum. Hún gaf aðeins eftir á síðari níu holunum en náði engu að síður að tryggja sér farseðilinn í holukeppnina. Hún lék á 76 höggum í dag og er í 53. sæti eftir höggleikinn.

Ragnhildur hefur leik á morgun klukkan 8 að staðartíma og mætir hún Aine Donegan. Það eru svo þær Hulda Clara og Jóhanna sem mætast í 64-kvenna úrslitum og hefja þær leik klukkan 9:52.

Hérna má sjá lokastöðuan í höggleiknum og hérna verður hægt að fylgjast með gangi mála hjá stúlkunum í holukeppninni.