Fréttir

Ragnhildur og Perla Sól í 64 manna úrslit
Ragnhildur Kristinsdóttir. Ljósmynd: GSÍ/Sigurður Elvar Þórólfsson
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
þriðjudaginn 21. júní 2022 kl. 21:53

Ragnhildur og Perla Sól í 64 manna úrslit

Jóhanna Lea, Andrea Björg og Hulda Clara eru úr leik - aldrei fleiri íslenskir kylfingar á Opna breska áhugamannamótinu

Þær Ragnhildur Kristinsdóttir og Perla Sól Sigurbrandsdóttir úr GR eru komnar áfram í 64 manna úrslit á Opna áhugamannamótinu sem fram fer á Hunstanton vellinum á Englandi þessa dagana.

Aldrei hafa Íslendingar sent jafn marga keppendur til leiks á mótið, sem er eitt af sterkustu áhugamannamótunum í heiminum í dag, eða fimm talsins. Auk Ragnhildar og Perlu Sólar léku á mótinu þær Jóhanna Lea Lúðvíksdóttir úr GR og Andrea Björg Bergsdóttir og Hulda Clara Gestsdóttir en báðar koma þær úr GKG.

Það voru 144 keppendur frá 24 þjóðríkjum sem hófu keppni á mánudag. Leiknir voru tveir 18 holu hringir fyrir niðurskurðinn inn í 64 manna úrslitin. Ragnhildur lék fyrsta hringinn á mánudag á 74 höggum eða á 1 höggi yfir pari og annan hringinn á 73 höggum eða á pari vallarins. Hún var því samtals á 1 höggi yfir pari á hringjunum tveimur. Perla Sól lék báða hringina á 74 höggum og var því samtals á 2 höggum yfir pari á hringjunum tveimur.

Jóhanna Lea, sem vann til silfurverðlauna á sama móti í fyrra, lék fyrsta hringinn á 73 höggum eða á pari en henni fataðist flugið á öðrum hringnum. Hún kom í hús á 77 höggum eða á 4 höggum yfir pari og missti af niðurskurðinum sem miðaðist við 3 högg yfir par. Andrea Björg lék fyrsta hringinn á 5 höggum yfir pari og annan hringinn á 1 höggi yfir pari. Hún lék hringina tvo því samtals á 6 höggum yfir pari. Hulda Clara lék fyrsta hringinn á 10 höggum yfir pari og annan hringinn á 2 höggum yfir pari. Hún lék hringina tvo því samtals á 12 höggum yfir pari.

Staðan á mótinu

Perla Sól, sem er í 544. sæti á heimslista áhugakylfinga, leikur gegn hinni sænsku Ingrid Lindblad, sem er í öðru sæti á listanum, en þær fara af stað um klukkan hálfátta í fyrramálið á íslenskum tíma. Ragnhildur, sem er í 324. sæti á listanum leikur gegn hinni þýsku Celina Sattelkau, sem er í 84. sæti á heimslistanum, og verða þær ræstar út upp úr klukkan ellefu í fyrramálið.

64 manna úrslitin