Fréttir

Ragnhildur og Sigurður sigruðu á fyrsta stigamóti ársins
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
mánudaginn 5. júní 2023 kl. 10:18

Ragnhildur og Sigurður sigruðu á fyrsta stigamóti ársins

Ragnhildur Kristinsdóttir, GR og Sigurður Arnar Garðarsson, GKG sigruðu á Leirumótinu, fyrsta stigamóti ársins í golfi. Góð þátttaka var í mótinu og aðstæður á Hólmsvelli góðar.

Ragnhildur var jöfn Berglindi Björnsdóttur eftir fyrsta hring en tók svo forystu í öðrum hring og bætti við hana jafnt og þétt og í lokin munaði níu höggum á þeim. Heiðrún Anna Hlynsdóttir varð þriðja, höggi á eftir Berglindi. 

Keppnin var jafnari hjá körlunum. Í upphafi þriðja hring náði Birgir Björn Magnússon, GK, höggs forystu og var með hana allt þar til á 16. holu en þá hafði Sigurður Arnar Garðarsson, GKG, jafnað við hann þegar hann fékk fugl. Hann bætti svo við fugli á 17. holu en Birgir, sem var í ráshópnum á eftir honum, lenti í vandræðum þar og tapaði höggi. Sigurður fékk par á lokaholunni og því þurfti Birgir að fá örn á 18. holu en náði því ekki, fékk fugl og endaði höggi á eftir. 

Kristján Þór Einarsson, GM, sem var með eins högg forskot fyrir lokahringinn endaði í 3. sæti og fjórði var heimamaðurinn Logi Sigurðsson.

Góð þátttaka var í mótinu, 92 karlar og 32 konur og gaf mótið stig til heimslista áhugamanna. 

Keppendur voru ánægðir með Hólmsvöll sem er í mjög góðu ásigkomulagi. Veðrið var ágætt en mun meiri vindur á lokadegi og skorið varð nokkuð hærra þá. 

Sjá má myndasafn frá lokadeginum neðst í fréttinni en einnig frá fyrsta keppnisdegi hér.

Birgir Björn Magnússon (mynd) háði harða baráttu við Sigurð Arnar í lokahringnum. Kylfingur.is/pket.

Leirumótið á Hólmsvelli 2023 - lokadagur