Fréttir

Reiknar með að hægt verði að spila 10-15 daga í viðbót
Hvaleyrarvöllur er enn í flottu ástandi þann 20. október.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
þriðjudaginn 20. október 2020 kl. 19:28

Reiknar með að hægt verði að spila 10-15 daga í viðbót

Eins og kylfingar á Íslandi hafa eflaust tekið eftir voru golfvellir á höfuðborgarsvæðinu opnaðir aftur í dag eftir tímabundna lokun síðustu 10 daga.

Þrátt fyrir að kominn sé 20. október eru flestir vellirnir enn í flottu ástandi og verða vellirnir opnir eins lengi og veður leyfir. 

Ólafur Þór Ágústsson framkvæmdastjóri Golfklúbbsins Keilis var í viðtali við Ríkharð Óskar Guðnason sem birt var á Vísi í dag en þar var hann einmitt spurður hve lengi Hvaleyrarvöllur yrði opinn í viðbót.

„Ástandið er mjög gott og við höfum sennilega sjaldan fengið svona fáar nætur með næturfrosti,“ sagði Ólafur. „Það er ástæðan fyrir því að völlurinn heldur svona vel lit og er í fantagóðu ástandi. Á meðan að veðrið er svona fínt höldum við áfram, og lengstu spár í dag segja okkur að við getum haldið áfram vonandi í 10 daga eða hálfan mánuð allavega.“

Viðtalið við Ólaf má sjá í heild sinni hér fyrir neðan.