Fréttir

Rickie Fowler og Ian Poulter ofmetnustu kylfingarnir
Ekki eins góðir og flestir halda?
Þriðjudagur 5. maí 2015 kl. 10:40

Rickie Fowler og Ian Poulter ofmetnustu kylfingarnir

Rickie Fowler og Ian Poulter eru ofmetnustu kylfingarnir á PGA mótaröðinni samkvæmt könnun sem íþróttablaðið Sports Illustrated gerði meðal kylfinga á mótaröðinni sjálfri. Báðir fengu þeir um 24% atkvæða eða nánast helming allra sem kusu.

Fowler sem er í 13. sæti heimslistans hefur einungis unnið eitt mót á mótaröðinni en það gerðist fyrir þremur árum á Wells Fargo Championship þegar hann vann Rory McIlroy og D.A. Points í bráðabana.

En af hverju er hann þá svona ofarlega á heimslistanum. Jú, hann gerði það sem einungis Tiger Woods og Jack Nicklaus hafa gert en það er að vera meðal fimm efstu á öllum fjórum risamótunum á sama tímabilinu. Reyndar í leiðinni fyrstur til að vinna ekkert af mótunum fjórum með þessa tölfræði.

Svo er spurning hvort þetta er einungis metið út frá heimslista og fjölda sigra. Fowler fær mikla athygli fyrir útlit sitt, fatnað og derhúfunar með beina derið sem er hugsanlega partur af hversu mikila athygli hann fær, þrátt fyrir fáa sigra.

Poulter hefur einungis unnið tvisvar á PGA mótaröðinni og sá síðasti kom eins og hjá Fowler, árið 2012 en hann á þó fjölda sigra á evrópsku mótaröðinni einnig. Hann er sem stendur í 30. sæti heimslistans.

Hann á það einnig sameiginlegt með Fowler að vera í litríkum fatnaði og fá athygli út á það. Einnig er hann þekktur fyrir að vera hvass í orðum eins og þegar hann gaf frá sér sigur fyrr á tímabilinu og nánast „drullaði“ yfir sjálfan sig í sjónvarpsviðtali. Einnig hefur hann kallað Hideki Matsuyama „idiot" og golffréttamann „penis“

Árið 2008 sagði Poulter í blaðaviðtali við golftímarit. „Ekki misskilja mig, ég ber fulla virðingu fyrir öllum atvinnukylfingunum en ég veit að ég hef ekki verið að spila mitt besta, þegar það gerist, er það bara ég og Tiger“

Hugsanlega getur þetta verið partur af því að hann sé ofmetinn, hver veit.