Fréttir

Rory um Reed: „Þetta leit illa út
Rory McIlroy.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
mánudaginn 9. desember 2019 kl. 21:30

Rory um Reed: „Þetta leit illa út"

Rory McIlroy er af mörgum talinn einn besti og skemmtilegasti kylfingurinn til að taka viðtal við þar sem hann er óhræddur við að tjá sig, segja sína skoðun og oft á tíðum með gott innsæi.

Því voru margir spenntir að heyra hvað McIlroy þætti um athæfi Patrick Reed í sandinum á þriðja hring Hero World Challenge mótsins. Þar fékk Reed dæmd á sig tvö vítishögg fyrir það að bæta legu sína í sandinum sem umlukti brautir vallarins.

„Atvikið leit mun verr út þegar það var sýnt hægt en þegar þetta var sýnt í beinni útsendingu,“ sagði McIlroy í dag þegar hann var í þættinum Morning Drive á Golf Channel stöðinni. „Þú reynir að leyfa kylfingnum að njóta vafans. Hann er að reyna finna út úr því hvernig hann eigi að slá höggið.“

„Það væri ekki búið að gera svona mikið úr þessu nema af því að þetta er Patrick Reed. Margir innan íþróttarinnar virðast hafa það sem áhugamál að sparka í hann meðan hann er liggjandi.“

Reed hefur oftar en einu sinni komist í fréttirnar fyrir vafasama hegðun og því var McIlroy ekki alveg til í að hreinsa alla sekt af Reed.

„Þetta högg leit illa út,“ sagði McIlroy. „Ég á erfitt með að trúa því að hann hafi ekki fundið fyrir því sem hann gerði. Þetta er erfitt. Ég vil frekar leyfa fólki að njóta vafans, víta einstaklinginn og halda áfram.“