Fréttir

Sameining mótaraðanna óvænt
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
miðvikudaginn 7. júní 2023 kl. 15:42

Sameining mótaraðanna óvænt

Þrjár stærstu mótarðir heims, PGA Tour, DP World Tour og LIV Golf, hafa undirritað tímamótasamning um sameiningu. Óhætt er að segja að það hafi verið róstursamt eftir að LIV mótaröðin með fjármögnun Sádí Arabíska ríkisins, var stofnuð fyrir tveimur árum. Forráðamenn allra mótaraðanna eru mjög ánægðir með samkomulagið. Öll málaferli í tengslum við LIV munu falla niður og leikmenn á mótaröðinni munu eiga möguleika á að leika á PGA og dP mótaröðinni, sem þeir misstu þegar þeir gengu til liðs við LIV.

„Það er engin spurning að LIV módelið hefur verið jákvæð innspýting í golfheiminn. Við teljum að það séu mikil tækifæri til að þróa framgang mótaraðanna með sameiningu þeirra,“ sögðu forsvarsmenn mótaraðanna en fréttir um þessa mjög svo óvæntu sameiningu kom í eins og þruma úr heiðskýru lofti í gær. Fullyrt er að málið hafi farið svo leynt að leikmenn sem hafa verið í forystu hjá PGA og LIV, hafi ekki vitað af málinu. Norður Írinn Rory McIlroy, einn besti kylfingur heims hefur verið í framlínu PGA mótaraðarinn og Phil Mickelson hjá LIV. Þeir og fleiri hafa eldað grátt silfur í fjölmiðlum nánast frá stofnun LIV, sem kom eins og stromsveipur inn í golfheiminn fyrir tveimur árum. 

Forráðamenn mótaraðanna munu nú vinna að frekari útfærslu á sameiningunni en mótaraðirnar munu starfa óbreytt úr árið 2023. 

Á fréttasíðu CNBC má sjá viðtal við framkvæmdastjóra PGA mótaraðarinnar, Jay Monahan og Yasir Al-Rumayyan sem fer fyrir sádí arabíska PIF fjárfestingasjóðnum. Yasir er m.a. spurður hvernig þetta hafi komið til. „Við Jay hittumst í London og fórum í golf saman og ræddum síðan nokkrum sinnum saman um málið. Við vorum sammála um að sameinaðir myndum við geta haft miklu meiri og jákvæðari áhrif á golf í heiminum, með tilliti til keppenda, áhorfenda, stuðningsaðila og fleiri. Þetta er gríðarlega spennandi verkefni.“

Stórkylfingurinn Dustin Johnson er einn af þeim sem fór yfir til LIV. Hann þénaði marga tugi milljarða í keppnum LIV á síðasta ári.