Fréttir

Shane Lowry sigraði á Opna mótinu árið 2019
Shane Lowry. Mynd: Golfsupport.nl.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
sunnudaginn 21. júlí 2019 kl. 17:06

Shane Lowry sigraði á Opna mótinu árið 2019

Írinn Shane Lowry sigraði í dag á Opna risamótinu sem fór fram á Royal Portrush vellinum í Norður-Írlandi.

Lowry spilaði hringina fjóra í mótinu á 15 höggum undir pari og varð að lokum sex höggum á undan Englendingnum Tommy Fleetwood.

Lokadagur mótsins varð í raun aldrei spennandi en Lowry lék yfirvegað golf og kom inn á höggi yfir pari við erfiðar aðstæður. Til samanburðar lék J. B. Holmes á 87 höggum en hann var í þriðja sæti fyrir lokadaginn.

Þetta er fyrsti sigur Lowry á risamóti en þessi 32 ára gamli kylfingur komst næst því að sigra á risamóti árið 2016 á Opna bandaríska mótinu þegar hann endaði í öðru sæti. 

Tony Finau endaði í þriðja sæti í mótinu á 7 höggum undir pari, höggi á undan Lee Westwood og Brooks Koepka.

Lokastaða efstu kylfinga mótsins:

1. Shane Lowry, -15
2. Tommy Fleetwood, -9
3. Tony Finau, -7
4. Lee Westwood, -6
4. Brooks Koepka, -6
6. Robert Macintyre, -5
6. Tyrrell Hatton, -5
6. Danny Willett, -5