Fréttir

Siggi Hafsteins fór holu í höggi - Íslendingar í golfi í sólinni á veirutímum
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 26. febrúar 2021 kl. 15:41

Siggi Hafsteins fór holu í höggi - Íslendingar í golfi í sólinni á veirutímum

Sigurður Hafsteinsson, golfkennari og fararstjóri hjá GolfSögu fór holu í höggi á Tekina golfvellinum á eyjunni La Gomera í Kanaríeyjaklasanum í vikunni. Þetta er í þriðja sinn sem kappinn nær draumahögginu en þetta var á 11. holu sem er 140 metrar að lengd og Siggi var með fleygjárnið.

„Ég tileinka Herði Arnarssyni þetta draumahögg því ég leysti hann af í þessum ráshópi. Hann var eitthvað upptekinn karlinn. Ég hitti fleygjárnið vel, boltinn lenti um 10 sm. fyrir aftan stöng og fékk bakspuna ofan í holu,“ sagði Sigurður léttur í bragði við kylfing.is.

Sigurður hefur starfað lengi við fararstjórn en hóf störf hjá Golfsögu á síðasta ár. Óhætt er að segja að Covid-19 hafi haft áhrif á rekstur ferðaskrifstofunnar, eins og allra. Hörður Arnarsson, einn þriggja eigenda ferðaskrifstofunnar segir að þau hafi staðið fyrir golfferðum frá byrjun febrúar til La Gomera. Það er lítil eyja í Kanaríeyjaklasanum. „Eyjan er nánast smitfrí en engu að síður er hugað vel að sóttvörnum. Þetta hefur gengið vel og við höfum verið með um 20 farþega í hverri ferð.“

Hörður segir að völlurinn sé skemmtilegur og hótelið flott. „Þetta er golfrísort á litlu svæði sunnarlega á eyjunni. Umhverfið er mjög skemmtilegt, höfn og nokkrir veitingastaðir. Íbúarnir í næsta nágrenni eru um 600 þannig að þetta er allt svona kósý og skemmtilegt. Veðrið hefur verið mjög gott. Völlurinn er líka skemmtilegur og útsýnið magnað. Við horfum út á Atlantshafið en svo sést líka til fjallsins Teite. Það er magnað að hæðamunur á 1. teig og 18. flöt er 172 metrar. Þannig að þetta er skemmtilegt og fólk er að njóta sín á veirutímum í golfi.“ 

Flogið er með Icelandair til Tenerife, farþegar fara beint úr flugvél í rútu í ferju sem siglir yfir á eyjuna La Gomera á rísortið.

Á vísindavefnum segir: La Gomera ein hinna sjö eyja í Kanaríeyjaklasanum utan við strönd Vestur-Afríku í Atlantshafinu og sú næstminnsta. Í miðju eyjarinnar er Garajonay-þjóðgarðurinn en þar er sérstæður lárviðarskógur.