Golfbúðin #Hamar
Golfbúðin #Hamar

Fréttir

Smith: Vonandi gleður þetta einhverja heima
Cameron Smith.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
þriðjudaginn 14. janúar 2020 kl. 22:30

Smith: Vonandi gleður þetta einhverja heima

Ástralinn Cameron Smith vann um helgina á PGA mótaröðinni í annað skiptið á ferlinum þegar hann fagnaði sigri á Sony Open mótinu eftir bráðabana gegn Brendan Steele.

„Ég þurfti bara að halda mér inni í baráttunni, það virtist enginn ná að spila neitt svo vel í dag, veðrið skánaði í lokin en ég þurfti bara að halda mér í baráttunni og þá getur þetta gerst,“ sagði Smith stuttu eftir lokahringinn.

Fyrsti sigur kappans kom þegar hann var í liði með Jonas Blixt á Zurich Classic en á sunnudaginn kom fyrsti einstaklingssigurinn.

„Þetta var eitt af því sem mig hefur langað að klára í langan tíma. Ég er búinn að vera hér [á PGA mótaröðinni] í fjögur eða fimm ár og að geta loksins sagt að ég hafi unnið mót sjálfur er frábært.“

Síðustu vikur hafa verið erfiðar fyrir Ástrali þar sem skógareldar hafa geisað um landið og ollið miklu tjóni. Smith vonast til að sigurinn hans hafi að minnsta kosti glatt einhverja heima sem eru að ganga í gegnum erfiða tíma.

„Þetta hefur verið fín helgi fyrir Ástrali, Wade [Ormsby] sigraði í Asíu, ég vann hér.. Ég vona einfaldlega að þetta veiti fólki sem er að fara í gegnum erfiða tíma allavega smá gleði.“