Fréttir

Spilamennska Berger verið frábær undanfarna mánuði
Daniel Berger.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
mánudaginn 15. febrúar 2021 kl. 22:08

Spilamennska Berger verið frábær undanfarna mánuði

Daniel Berger fagnaði sínum fjórða sigri á PGA mótaröðinni í gær þegar að hann bar sigur úr býtum á AT&T Pebble Beach Pro-Am mótinu. Hann lék frábært golf á lokahringnum en hann kom í hús á 65 höggum, eða sjö höggum undir pari.

Spilamennska Berger var ekki aðeins góð nú um helgina því hann er nú sá kylfingur mótaraðarinnar sem er búinn að leika flesta hringi í röð á pari vallar eða betur. Síðustu 26 hringir Berger hafa verið á pari eða undir pari. Í þeim sex mótum sem hann hefur leikið er hann samtals á 112 höggum undir pari. Hann hefur þó ekki náð að sigra á þessu tímabili fyrr en í gær.

Það er samt Tiger Woods sem á metið yfir flesta hringi í röð leikna á pari vallar eða betur en frá árinu 2000 til byrjun árs 2001 lék Woods 52 hringi á pari vallar eða betur. Hann lék í 13 mótum á þeim tíma og vann sex af þeim.