Fréttir

Stjörnumprýtt mót í Sádi Arabíu í byrjun árs 2021
Dustin Johnson.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
fimmtudaginn 26. nóvember 2020 kl. 20:45

Stjörnumprýtt mót í Sádi Arabíu í byrjun árs 2021

Þrátt fyrir að mótaskrá næsta árs á Evrópumótaröðinni sé ekki fullmótuð eru kylfingar farnir að boða komu sína í hin og þessi mót. Eitt af mótunum sem er þó staðfest er Saudi International mótið en þetta verður í þriðja skipti sem þetta mót fer fram. Mótið fer fram 30. janúar - 2. febrúar á næsta ári og verður mótið eitt það sterkasta á mótaröðinni á næsta tímabili.

Eins og síðustu tvö ár verður leikið á Royal Green golfvellinum í Sádi Arabíu en það var árið 2019 sem mótið var haldið í fyrsta sinn. Mótið hefur vaxið töluvert ár frá ári en það hafa alltaf nokkur þekkt nöfn verið á meðal keppenda. Til að mynda eru sigurvegarar mótsins frá upphafi Dustin Johnson (2019) og Graeme McDowell (2020).

Kylfingar sem hafa nú þegar boðað komu sína eru meðal annars Tyrrell Hatton, Paul Casey, Tommy Fleetwood, Sergio Garcia, Ian Poulter, Justin Rose, Henrik Stenson, Lee Westwood og Rafa Cabrera Bello. Sigurvegarar mótsins síðustu tveggja ára verða einnig á meðal keppenda og að lokum eru Bandaríkjamennirnir Patrick Reed og Phil Mickelson búnir að boða komu sína.

Það stefnir því í að þetta verður eitt sterkasta mót tímabilsins á Evrópumótaröðinni en kylfingar vilja greinilega byrja að safna stigum fyrir Ryder Bikarinn sem fer fram næsta haust.


Graeme McDowell.