Fréttir

Tileinkaði frændum sínum sigurinn
Sergio Garcia.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
mánudaginn 5. október 2020 kl. 11:16

Tileinkaði frændum sínum sigurinn

Spánverjinn Sergio Garcia sigraði á sunnudaginn á Sanderson Farms meistaramótinu sem fór fram á PGA mótaröðinni. Garcia lék hringina fjóra á 19 höggum undir pari og fagnaði sínum fyrsta sigri á PGA mótaröðinni frá því að hann vann á Masters mótinu árið 2017.

Hvað var það sem Garcia gerði til að komast í gegnum undanfarin tímabil án þess að komast í FedEx lokamótin og standa svo uppi sem sigurvegari í dag?

„Þetta snýst um að halda í trúnna, halda áfram að æfa vel, teymið mitt hefur haldið vel utan um mig og svo hef ég fundið hluti hér og þar sem hafa hjálpað mér,“ sagði Garcia sem púttaði til að mynda með lokuð augun í mótinu.

„Það er mjög góð tilfinning að standa á 18. holu og slá gott drag (e. draw) og þaðan gott 8 járn og setja púttið niður.“

Í viðtalinu hér fyrir neðan viðurkenndi Garcia að undanfarnir mánuðir hefðu verið erfiðir fyrir hann þar sem hann hefði misst tvo frændur sína sem féllu fyrir Covid-19 veirunni og tileinkaði hann þeim sigurinn.

„Þetta hefur verið erfiður tími því ég missti tvo frændur mína vegna Covid, þetta hefur verið erfitt fyrir pabba en þessi sigur var fyrir þá,“ sagði Garcia sem átti erfitt með að hemja tilfinningar sínar.