Fréttir

Trúi ekki að ég sé orðinn svona gamall
Lee Westwood. Mynd: Getty Images.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
sunnudaginn 19. janúar 2020 kl. 22:44

Trúi ekki að ég sé orðinn svona gamall

Líkt og Kylfingur greindi frá fyrr í dag sigraði Lee Westwood á Abu Dhabi HSBC meistaramótinu sem fór fram á Evrópumótaröð karla um helgina.

Westwood fagnaði þar með sínum 25. sigri á mótaröð þeirra bestu í Evrópu og hefur hann nú unnið á mótaröðinni fjóra áratugi í röð.

„Ég trúi ekki að ég sé orðinn svona gamall,“ sagði Westwood þegar blaðamaðurinn ræddi við Englendinginn um þessa staðreynd. „Þetta er að verða erfiðara.“

„Það er einfaldlega gott að koma út á völl og halda áfram að sanna að maður sé með þetta.

Ég vann fyrsta mótið mitt árið 1996 í Svíþjóð. Ég vann það mót á þremur mismunandi áratugum og nú vann ég hér í vikunni. Þessi áratugur gæti orðið minn.“

Aðspurður um möguleika sína á að spila sig inn í Ryder lið Evrópumanna sagði Westwood eftirfarandi:

„Ég er ekki viss um að ég geti höndlað fleiri Ryder keppnir. Ég hef spilað í tíu slíkum og það var gaman að sjá strákana spila síðast. En ef það er möguleiki gæti ég alveg eins tekið slaginn.“