Fréttir

Úrtökumótin: Haraldur náði ekki að klára annan hringinn
Haraldur Franklín Magnús.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
föstudaginn 8. nóvember 2019 kl. 18:33

Úrtökumótin: Haraldur náði ekki að klára annan hringinn

Haraldur Franklín Magnús GR byrjaði í dag á öðrum hringnum í 2. stigs úrtökumóti fyrir Evrópumótaröð karla sem fer fram á Alenda golfsvæðinu á Spáni. Vegna veðurs náði Haraldur ekki að klára hringinn í dag en mikill vindur var á svæðinu.

„Kúlan hélst ekki á grínunum, svo mikið var rokið orðið,“ sagði Haraldur í samtali við blaðamann Kylfings.

Haraldur náði að spila níu holur á öðrum hringnum en hann var á tveimur höggum yfir pari fyrir annan hringinn. Hann fer svo aftur út á laugardaginn og klárar annan hringinn en ekki er víst hvort hann nái að klára þriðja hringinn í kjölfarið.

Mikil óvissa ríkir um lok mótsins en upphaflega átti mótið að klárast á sunnudaginn. Veðurspáin fyrir sunnudaginn er hins vegar enn verri en fyrir daginn í dag og því möguleiki á að mótið klárist á mánudaginn.

Alls komast 20 kylfingar áfram af öðru stiginu á lokastigið. Haraldur var jafn í 50. sæti eftir fyrsta keppnisdaginn.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.