Hellishólar
Hellishólar

Fréttir

Valdís og Ólafía hefja leik á mánudaginn
Ólafía Þórunn komst alla leið í lokaúrtökumótið í fyrra.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
sunnudaginn 13. október 2019 kl. 11:27

Valdís og Ólafía hefja leik á mánudaginn

Valdís Þóra Jónsdóttir og Ólafía Þórunn Kristinsdóttir eru mættar til Flórída þar sem annað stig úrtökumótanna fyrir LPGA mótaröðina fer fram.

Mótið fer fram dagana 14.-17. október og spila allir 185 keppendur mótsins fjóra hringi. Að hringjunum fjórum loknum komast að lágmarki 30 kylfingar áfram og keppa í lokaúrtökumótinu sem fer fram dagana 23. október - 2. nóvember á Pinehurst golfsvæðinu í Norður-Karólínu.

Valdís Þóra lék í 1. stigs úrtökumótinu fyrr í haust og komst þar örugglega áfram. Ólafía þurfti hins vegar ekki að taka þátt í 1. stiginu þar sem hún var með þátttökurétt á Symetra mótaröðinni í ár og fór þaðan beint inn á annað stigið.

Leikið er á tveimur völlum í úrtökumótinu en það eru Panther og Bobcat vellirnir hjá Plantation golfklúbbnum. Valdís og Ólafía byrja báðar á Panther vellinum en allir keppendur munu leika tvo hringi á hvorum velli. 

Rástímarnir fyrir fyrsta hringinn eru klárir. Valdís fer fyrr af stað eða klukkan 9:17 að staðartíma og Ólafía fer svo út klukkan 12:54. Fjögurra tíma mismunur er á Flórída og Íslandi.

Hér verður hægt að fylgjast með skori keppenda í beinni.


Valdís Þóra Jónsdóttir.