Fréttir

Valdís segir Ólympíuleikana að sjálfsögðu vera stærsta markmiðið
Valdís Þóra Jónsdóttir.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
sunnudaginn 7. febrúar 2021 kl. 16:41

Valdís segir Ólympíuleikana að sjálfsögðu vera stærsta markmiðið

Þó svo að PGA mótaröðin og Evrópumótaröð karla hafi leikið nokkur mót á árinu þá er kvennagolfið ekki alveg komið á fullt þetta árið. Eitt mót hefur verið leikið á LPGA mótaröðinni en Evrópumótaröð kvenna hefur líklegast ekki göngu sína fyrr en í maí.

Valdís Þóra Jónsdóttir, sem situr í 616. sæti á heimslistanum og er efst íslensku kvenkylfinganna, er með keppnisrétt á Evrópumótaröð kvenna og mun því eyða næstu vikum og mánuðum í undirbúa sig fyrir komandi tímabil.

Árið reyndis Valdísi erfitt í fyrra þar sem hún var að glíma við meiðsli og gat hún til að mynda ekki verið með á Íslandsmótinu í höggleik síðasta sumar. Það lá því beinast við að spyrja um líðan hennar og hvort að hún gæti orðið sveiflað kylfunni af fullum krafti.

„Staðan á mér er bara ágæt. Ég er ennþá með smá verki á “gamla” staðnum í efra bakinu og því ljóst að ég þarf líklega að fara í fleiri sterasprautur í liðina þar en meiðslin sem háðu mér mest á síðasta ári hafa loksins fengið viðeigandi meðferð og hef ég ekki fundið til þar síðan um jólin. Ég er ekki farin að slá full högg en mun vinna mig upp í þau á einhverjum tíma.“

Lítið varð úr síðasta tímabili á Evrópumótaröð kvenna og þegar mótaröðin fór af stað var Valdís búin að gefa það út að hún yrði frá restina af tímabilinu sökum meiðsla. Þegar hún var spurð út í aðdraganda meiðslanna og hvort hún hefði hugsanlega getað leikið hefði árið verið eðlilegt vildi hún ekki mikið vera velta því fyrir sér. Hún sagði þó að hún hefði getað keppt síðasta haust en ákvað í samvinnu við sitt teymi að jafna sig fullkomlega á meiðslunum.

„Það er erfitt að segja því maður getur alltaf spurt “hefði ég meiðst hefði ég verið erlendis?” Ég byrjaði að finna fyrir þessu í seinni hluta apríl en af hverju? Voru það æfingar í kuldanum sem spiluðu inn í eða var þetta alltaf að fara að gerast? Þetta eru spurningar sem ekki er hægt að svara en þetta gerðist og þar við situr. Ég hefði alveg getað farið út í haust og spilað en ég hefði fundið mjög mikið til og því var ákvörðun tekin um að fara ekki.“

Þó svo að Valdís sé enn að jafna sig af meiðslunum þá er markmiðið að vera tilbúin þegar keppnistímabilið hefst. Hún ætlar að eyða næstu vikum í að styrkja sig líkamlega og gefa til baka til fólksins sem hefur staðið við bakið á henni undanfarin ár. Hvað varðar æfingaferðir til útlanda er mikil óvissa.

„Næstu vikur og mánuðir munu fara í það að koma mér á sama stað og ég var og helst aðeins lengra en það. Það eru engin mót á dagskrá fyrr en í maí og því fæ ég nokkra auka mánuði til að koma mér í stand sem betur fer. Þangað til mun ég gera mitt besta í að styrkja mig og komast í góða æfingu. Einnig mun ég þjálfa krakkana og sjá um námskeið fyrir klúbbmeðlimi Leynis, reyna gefa eitthvað til baka til klúbbsins og fólksins sem hefur stutt mig öll þessi ár. Kannski kemst ég út um páskana að æfa sjálf og svo með krakkana út í apríl en það er ómögulegt að segja. Aðstæður breytast frá degi til dags og ég ætla ekki að ana út í neitt.“

Eins og áður kom fram er Valdís í 616. sæti heimslistans og því efst af íslensku atvinnukvenmönnunum. Ólympíuleikarnir eiga að fara fram í sumar í Japan og er Valdís í fínni stöðu til að komast inn á leikana. Í dag er það Julieta Granada sem er síðust til að komast inn en hún er í 412. sæti heimslistans. Valdís segir það að sjálfsögðu stóra markmiðið í ár að komast á leikana.

„Ólympíuleikarnir eru að sjálfsögðu stærsta markmið ársins og ég hef mikið hugsað um þá. Það að mótin byrji ekki fyrr en í maí er bæði gott og slæmt því ég hef góðan tíma til að undirbúa mig og koma mér í stand, en ekki jafn mikinn tíma til að koma mér inn á leikana sjálfa og þarf því margt að ganga upp. Ég byrjaði árið 2020 sterkt og var komin upp um rúmlega 100 sæti á heimslistanum á þremur mótum, það þarf í raun ekki nema eitt til tvö góð mót og draumurinn getur orðið að veruleika. Það krefst hinsvegar kænsku og þolinmæði.“

Eins og Valdís talar um þá er stefnt að því að byrja að leika á Evrópumótaröð kvenna í maí. Hún telur þó að það verði nóg um að vera í sumar og haust og reiknar með að árið verði nokkuð eðlilegt miðað við síðasta ár. Árið í fyrra var þó ekki alslæmt fyrir Valdísi þar sem hún fékk góðan tíma til að eyða með fjölskyldu og vinum hér heima á Íslandi.

„Árið byrjar mjög hægt og byrjar í raun ekki fyrr en í maí. Það átti að byrja núna í febrúar og svo núna í mars en þeim mótum hefur verið frestað, annað fram í maí en hitt fram á haust. En miðað við að bólusetningar gangi vel og það komist smá í eðlilegt horf aftur, þá sé ég fram á annasamt haust. Það hefur samt verið gott að fá að vera heima í svona langan tíma, fá að upplifa og taka þátt í viðburðum í fjölskyldunni sem ég hef annars misst af. Það er það sem stendur upp úr árið 2020 hjá mér. Ég gat verið til staðar.“