Valdís Þóra hættir í atvinnumennsku - þrjú ár af stanslausum sársauka
Valdís Þóra Jónsdóttir, atvinnukylfingur frá Akranesi og margfaldur Íslandsmeistari kvenna hefur ákveðið að leggja atvinnuferilinn á hilluna. „Eftir höfðinu dansa limirnir og þeir hafa gert það undanfarin þrjú ár. Þrjú ár af stanslausum sársauka sem ég náði að harka af mér í gegnum vegna keppnisskaps, þrjósku og metnaðar,“ segir hún í færslu á Facebook.
Hún segir mál að linni og hún verði að hlusta á líkamann og segja þetta gott. Síðustu 4 mánuði hefur hún fengið 15 sterasprautur í bakið og búið sé að fara inn í taugar og gefa þeim rafstuð en ég hvert sinn sem hún byrji að sveifla af fullum krafti hafi verkirnir blossað upp að nýju. Mikil inngrip í líkamann hafi ekki gengið og líkamleg og andleg heilsa skipti meira máli en íþróttir.
„Golf hefur kennt mér alveg ofboðslega mikið. Þolinmæði, samkennd, virðingu. Ég hef upplifað mikla gleði og mikla sorg. Stundum á sama tíma. Ég náði kannski ekki öllum þeim markmiðum sem ég hefði viljað en ég komst á sama tíma á mót og staði sem voru fjarlægur dramur ungrar stúlku. Ég geng sátt frá borði, fékk að upplifa ótrúleg ferðalög, kynnast frábæru fólki og eignast vini um allan heim sem vonandi verða vinir mínir til frambúðar,“ segir Valdís.
Hún þakkar í færslu sinni öllum fyrir mikinn stuðning, m.a. Hlyni Geirs og Karli Ómars og fleiri aðilum.
Hún ætlar nú að miðla reynslu sinni til næstu kynslóðar og hjálpa þeim að komast jafn langt og hún og lengra. „Og vonandi takið þið manneskjunni Valdísi Þóru opnum örmum, ég held ég sé alveg ágæt,“ sagði hún að lokum.
Valdís Þóra lék á Opna bandaríska risamótinu.