Hátt í þúsund manns á biðlista hjá GKG
Rekstur Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar gekk vel á árinu en hagnaður af starfseminni nam 57 milljónum króna. Um 950 manns eru á biðlista til að ganga í klúbbinn að því er fram kemur í frétt klúbbsins frá aðalfundinum.
Árgjald fyrir félagsmenn 26-69 ára verður 175 þúsund. Jón Júlíusson var endurkjörinn formaður en hann hefur sinnt því verkefni síðustu þrjú ár.
Einar Þorsteinsson formaður vallarnefndar fór yfir framkvæmdir á síðasta starfsári, en s.l. golftímabil er það lengsta til þessa, frá 30. apríl til seinniparts október. Vellir hafa sjaldan verið betri og voru rómaðir af kylfingum fyrir gott ásigkomulag og snyrtimennsku.
Haukur Már Ólafsson starfandi íþróttastjóri GKG kynnti starfsemi íþróttasviðs og fór yfir fjölda og árangur þeirra, sem æfðu og kepptu á vegum félagsins. Mikil sprengja er í fjölda þeirra iðkenda sem vilja stunda golf. Það er mjög jákvætt en jafnframt krefjandi þar sem aðstaða og fjöldi kennara er við þolmörk.
Fjögur framboð til stjórnar bárust innan tilskilins frests fyrir aðalfundinn. Sjálfkjörið var því í stjórn. Í framboði voru:
- Birgir Leifur Hafþórsson, stjórnarmaður í GKG
- Hulda Ólafsdóttir Klein, formaður kvennanefndar GKG. Kemur ný inn í stjórn.
- Sigríður Olgeirsdóttir, stjórnarmaður í GKG
- Sigurður Kristinn Egilsson, stjórnarmaður í GKG
Undir liðnum önnur mál kynnti Úlfar þann unga kylfing sem hlýtur Háttvísibikarinn í ár, en það er Gunnar Þór Heimisson, sem er vel að þessari viðurkenningu kominn.


