Fréttir

Vonbrigði hjá Haraldi á Spáni
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
miðvikudaginn 15. nóvember 2023 kl. 17:30

Vonbrigði hjá Haraldi á Spáni

Eftir frábæra byrjun á lokaúrtökuótinu á Spáni í fyrstu tveimur hringjunum fataðist Haraldi Franklín Magnús flugið. Hann endaði í 77. sæti og endaði í næst neðsta sæti af þeim 78 sem komust í gegnum niðurskurðinn af nærri 160 keppendum.

Haraldur lék sjötta og síðasta hringinn á sex höggum yfir pari í skrautlegum hring þar sem hann fékk tvo tvöfalda skolla og fimm skolla. Fjórir fuglar löguðu stöðuna aðeins en eftir að hafa verið á átta höggum undir pari eftir tvo hringi og í efstu fimm sætunum lék hann næstu fjóra hringi á átta yfir pari.

Þrjátíu og þrír efstu fengu þátttökurétt á DP mótaröðinni í Evrópu en tólf kylfingar voru jafnir í 21.-33. sæti á 14 höggum undir pari.

Haraldur er með þátttökurétt á Áskorendamótaröðinni en auk hans eru Guðmundur Ágúst Kristjánsson og Axel Bóasson með þátttökurétt þar.